fimmtudagur, október 25, 2007

Fann þessa frétt á mbl.is

Ein stærsta hótelkeðjan á Bretlandseyjum, sem sérhæfir sig í ódýrri gistingu, hefur þurft að þjálfa starfsmenn sína sérstaklega til þess að taka á óvanalegu vandamáli, en mikil aukning hefur orðið á því að gestir hótelkeðjunnar gangi naktir um ganga hótelanna í svefni.

Travelodge, sem rekur yfir 300 hótel á Bretlandi, segir að tala svefngengla hafi sjöfaldast sl. ár og að í 95% tilfella sé um fáklædda karlmenn að ræða.

„Við höfum orðið vör við aukinn fjölda tilfella undanfarin ár svo það er mikilvægt að starfsmenn okkar viti hvernig eigi að aðstoða svefngengla ef slíkt mál kemur upp,“ sagði Leigh McCarron hjá Travelodge.

Meðal þeirra ráða sem fyrirtækið mælir með er að starfsmenn í afgreiðslunni séu ávallt með handklæði við höndina ef nakinn svefngengill fer á stjá.

Að sögn hótelkeðjunnar hafa umræddir gestir m.a. spurt starfsmenn hótelsins hvar klósettið sé að finna, hvort þeir geti útvegað þeim dagblað eða hvort þeir geti skráð sig út þar sem þeir séu orðnir of seinir í vinnuna.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að ýmislegt geti valdið því að fólk gangi í svefni, t.d. streita, áfengisdrykkja, ostaát eða óhófleg koffeinneysla. Í flestum tilvikum fara svefngenglar á stjá þegar ein til tvær klukkustundir eru liðnar frá því þeir gengu til náða, en það er sá tími þegar fólk er við það að ná djúpsvefni.

Kv. Stjórnin,... Næææætur, drauuumalönd, dimmblárhiminn við sjónarrönd

Engin ummæli: